UMSÓKNAR- OG KAUPFERLI BÚSETURÉTTAR Í NÝBYGGINGUM

Sala á 37 búseturéttum við Hallgerðargötu 24 og 26 er hafin. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti fimmtudaginn 18. apríl. Úthlutun fer svo fram 19. apríl, kl. 12:00 með rafrænum hætti.

Til að geta sótt um íbúð verður þú að vera félagsmaður en hægt er að skrá sig í Búseta hér GERAST FÉLAGI

Íbúðir í nýbyggingum Búseta eru auglýstar á föstu verði og félagsnúmer ræður röð umsækjenda.

SKREF 1 - Innskráning á „Minn Búseti“:

  • Til að sækja um íbúð, eina eða fleiri, þarf að skrá sig inn á „Minn Búseti“ með rafrænum skilríkjum eða kennitölu og lykilorði.
  • Umsækjandi þarf að vera skuldlaus félagsmaður til að geta sótt um búseturétt.
  • Mikilvægt er að gilt netfang sé skráð við félagsaðildina.
  • Ef þú ert ekki félagsmaður þá getur þú skráð þig með því að smella á „gerast félagi“ og skráð þig á örfáum mínútum.

SKREF 2 – Umsókn fyllt út:

  • Þegar komið er inn á „Minn Búseti“ er hægt að sækja um þær íbúðir sem eru lausar. Hægt er að sækja um fleiri en eina íbúð.
  • Þær íbúðir sem umsækjandi velur safnast saman í „Mínar umsóknir“. Mikilvægt er að raða völdum íbúðum í forgangsröð. Við úrvinnslu umsókna er notast við þessa röðun og ef umsækjandi fær íbúð er eytt út úr umsóknarferlinu þeim íbúðum sem eru neðar í röðinni hjá viðkomandi.
  • ATH umsóknarfrestur rennur út á miðnætti fimmtudaginn 18. apríl 2024.

SKREF 3 – Úthlutun:

  • Úthlutunarlisti (listi yfir röð umsækjenda) verður birtur á www.buseti.is kl. 12:00 föstudaginn 19. apríl 2024.
  • Tölvupóstur er sendur á efsta umsækjanda á listanum með tilkynningu um úthlutun. Sá umsækjandi verður að staðfesta úthlutunina fyrir kl. 14:00 sama dag með því að svara tölvupóstinum. Ef þú svarar ekki er það tekið sem neitun og næsti í röðinni fær íbúðina.
  • Ef þú hefur í hyggju að taka lán hjá Landsbankanum þarftu að tilkynna það strax á netfangið buseti@buseti.is.
  • Lánið er háð lánareglum Landsbankans og er veitt að undangengnu greiðslumati bankans. Það er flokkað sem fasteignalán, það má vera helmingur af búseturétti og getur verið til 10 ára. Lánið er með breytilegum vöxtum 11,55% óverðtryggt og 4,45% verðtryggt. Lántökugjald er kr. 59.900.- Ekki er lánað fyrir kostnaði. Í eftirfarandi tengli má lesa um lánakjör vegna kaupa á búseturétti

SKREF 4 – Bráðabirgðasamningur og greiðsla búseturéttar:

  • Ganga þarf frá bráðabirgðasamningi vegna kaupa á búseturétti innan 10 virkra daga frá úthlutun. Þú bókar fund til þess í síma 556-1000 eða sendir tölvupóst á buseti@buseti.is.
  • Um leið greiðir þú staðfestingargjald sem er 20% af kaupverði búseturéttar auk umsýslukostnað kr. 150.000.- sem er óafturkræfur. Greiðslan fer fram með millifærslu og gott er að vera búin/n að hafa samband við sinn viðskiptabanka áður ef upphæð fer yfir heimild dagsins.
  • Hægt er að greiða búseturétt að fullu við gerð bráðabirgðasamnins eða dreifa mismuninum með mánaðarlegum greiðslum á byggingartímann. Lokagreiðslan, að hámarki 20% af kaupverði búseturéttar þarf að vera greidd í síðasta lagi 14 dögum fyrir afhendingu íbúðarinnar.
  • Best er að leita til viðeigandi lífeyrissjóðs varðandi upplýsingar um séreignasparnaðar.
  • Ef hjón eða sambúðarfólk ætlar að vera skráð saman á búsetusamninginn þurfa báðir aðilar að vera félagsmenn, hægt er að ganga frá félagsaðild í gegnum heimasíðuna eða á skrifstofu félagsins, árgjaldið er kr. 5.500.-. Ath. báðir aðilar þurfa að mæta á fundinn og skrifa undir bráðabirgðasamninginn.
  • Þegar farið er á milli búsetaíbúða gengur eldri búseturéttur upp í þann nýja, að frádregnum kostnaði. Hér má nálgast verðskrá. Íbúi verður að vera í skilum með búsetugjöldin. Landsbankalán getur færst á milli íbúða. Hvert tilfelli er þó skoðað fyrir sig þegar að samningsgerð kemur. Að öðrum kosti er lán greitt upp.

SKREF 5 – Afhending íbúðar:

  • Fulltrúi frá Búseta framkvæmir úttekt á íbúðinni, ásamt kaupanda og afhendir honum svo lykla. Um leið er skrifað undir búsetusamning sem Búseti sér um að láta þinglýsa.
  • Búsetugjaldið er greitt fyrir fram og þarf að vera greitt fimm dögum fyrir afhendingu íbúðar. Það verður innheimt með kröfu í heimabanka.
  • Athugið að auglýst búsetugjöld taka mið af áætlun sem verður leiðrétt þegar raungjöld falla til og komið er endanlegt fasteigna- og brunabótamat á eignirnar sem og hússjóður þegar húsfélag hefur verið stofnað.

*Birt með fyrirvara um villur.