Á síðustu misserum hefur Kirkjusandsreiturinn á Laugarnesinu tekið miklum breytingum og hefur nýjum byggingum fjölgað mikið. Uppbyggingin sem nú á sér stað er ekki síst við Hallgerðargötu sem liggur samsíða lóðinni þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka á Kirkjusandi voru áður. Í Græna plani Reykjavíkurborgar kemur fram að við Kirkjusand sé að byggjast upp fjölbreytt íbúðabyggð ásamt atvinnuhúsnæði, þar sem áður voru verkstæði og geymslur. Samkvæmt skipulagi verður í uppbyggingu öll helsta þjónusta eins og skólar, verslun og gott aðgengi að stígum og gönguleiðum. Lögð er áhersla á að þjónustan í hverfinu verði í göngu- og hjólafæri.
Kirkjusandur er á besta stað við strandlengjuna í jaðri Laugarneshverfis. Þaðan er einnig stutt í miðbæinn með sínu viðskipta- og menningarlífi, ásamt fjölbreyttum útivistarmöguleikum og upplifunum.
Myndin hér til hliðar er hluti af verðlaunatillögu Kurt og pí um þróunarsvæði við Kirkjusand.
„Öll mannvirki sem voru reist undir fiskverkun á Kirkjusandi á fyrri helmingi 20. aldar og mynduðu ákveðna þyrpingu og menningarsögulega heild hafa verið rifin að einu húsi undanskyldu. Það hús var ekki varðveitt á Kirkjusandi heldur flutt þaðan árið 2007 og komið fyrir við gömlu höfnina í Reykjavík (Ægisgarð 2)." - Úr Kirkjusandur-sagan af ferlir.is
Í næsta nágrenni Hallgerðargötu er Laugardalurinn, eitt helsta íþrótta- og útivistarsvæði höfuðborgarinnar. Þar er að finna stærstu sundlaug landsins, fjölskyldu- og húsdýragarð, þjóðarleikvang fótboltalandsliðanna, skautahöll, grasagarð og græn almenningssvæði.
Hugmyndir um Laugardal sem íþrótta- og útivistarsvæði eiga sér djúpar rætur. Fyrstu uppdrættir að íþróttasvæði í Laugardal eru frá því um 1870 en árið 1943 samþykkti bæjarstjórn að gera allan Laugardalinn að íþrótta- og útivistarsvæði.