Framkvæmdir við Hallgerðargötu 24 og 26 eru að hefjast og verður fyrsta skóflustunga tekin 19. október 2022. Um er að ræða tvískipta byggingu með bílakjallara. Húsin verða staðsteypt og klædd að utan. Íbúðirnar eru fjölbreyttar að stærð og gerð, 2ja til fimm herbergja, allt frá 60 m² til rúmlega 140 m² að stærð.
Í þessu verkefni felst samstarf milli Búseta og Brynju, sem er leigufélag á vegum Öryrkjabandalagsins. Í verkefninu byggir Búseti 37 íbúðir fyrir félagsmenn sína og fimm íbúðir fyrir Brynju. Stíll húsanna rímar við útlit þeirra húsa sem fyrir eru og þau sem áformað er að byggja við Kirkjusand, samkvæmt gildandi skipulagi svæðisins.
Gláma-Kím arkitektar eiga heiðurinn af hönnun húsanna við Hallgerðargötu 20 en þau samrýmast viðmiðum um algilda hönnun þar sem áhersla er á gott aðgengi fyrir alla. Um er að ræða lyftuhús og því hindranalaust aðgengi að svölum og sérafnotareitum. Bílastæði í sameiginlegum bílakjallara fylgja flestum íbúðanna og þar eru möguleikar á tengingum fyrir rafhleðslu bifreiða.
Á myndinni eru f.v. Erla Símonardóttir fjármálastjóri Búseta, Hlynur Örn Björgvinsson verkefnastjóri byggingaframkvæmda hjá Búseta, Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta, Rúnar Ólafsson framkvæmdastjóri byggingasviðs GG-verks og Helgi Gunnarsson framkvæmdastjóri GG-verks.